Skipulag og umhverfi

Landspítali - Módel

Allt frá sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hefur það verið haft að markmiði að skipulag starfseminnar miðist við að þarfir sjúklingsins séu ávallt í fyrirrúmi.

Spítalinn þarf líka að vera samkeppnishæfur á alþjóðlegum vettvangi og byggingarnar - sem áberandi kennileiti í höfuðborginni - eiga í skipulagi og útliti að skapa viðeigandi auðkenni fyrir starfsemina og falla vel að umhverfi sínu. Tillit verður tekið til byggðar og byggðarmynsturs í aðlægum hverfum og nýbyggingar felldar að núverandi byggingum og fyrirhuguðu skipulagi í hlutföllum og hæðum. Unnt verður að byggja svæðið upp í áföngum og lögð rík áhersla á að hver áfangi standi sjálfstætt. Tekið verður tillit til þess að núverandi starfsemi á lóðinni þarf að vera í fullum rekstri meðan byggingaframkvæmdir standa yfir

lsh05711Þarfir sjúklingsins skulu ávallt vera í fyrirrúmi.Miklar breytingar eiga sér stað í rekstri sjúkrahúsa og því er þörf á að formgerð bygginga nýja spítalans bjóði upp á sveigjanleika í staðsetningu og stærð deilda, þannig að auðvelt sé að aðlaga þær breyttri starfsemi. Þróun í læknisfræði og heilbrigðistækni er mjög hröð og ný tækni leiðir til þess að meðferð mun í auknum mæli verða veitt á dag- og göngudeildum, án innlagnar á sjúkrahúsið. Hönnun og skipulag sjúkrahússins miðast við að reksturinn verði hagkvæmur en jafnframt er leitast við að tryggja að:

  • sjúklingurinn sé ávallt í öndvegi
  • samþætting háskóla- og sjúkrahúshlutans takist vel
  • uppbygging NLSH auðgi borgarumhverfið
  • stærsti vinnustaður landsins bjóði eftirsóknarverðar starfsaðstæður og umhverfi
  • uppbygging NLSH stuðli að aukinni hagkvæmni í rekstri til frambúðar með heildstæðum, umhverfisvænum skipulagslausnum
  • samgöngustefna og einkabílanotkun miðist fyrst og fremst við þarfir sjúklinga og gesta
  • reitaskipting einfaldi áfangaskiptingu og byggingarmagn geti breyst án þess að skipulagshugmynd sé raskað
  • garðar og útivistarsvæði verði nýttir sjúklingum, starfsfólki og borgarbúum til hollustu og yndisauka.

Þrátt fyrir að deiliskipulag nýs Landspítala sé ekki matsskylt samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana hefur samt sem áður verið ákveðið að vinna slíkt umhverfismat sökum umfangs og staðsetningar verkefnisins. Samhliða vinnu við tillögu að nýju deiliskipulagi spítalans er unnið að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarinnar fyrir sama tímabil.

Áhersla er lögð á samráð við hagsmundropaaðila í skipulagsvinnunni og verður umhverfismatið m.a. kynnt sérstaklega á kynningar- og samráðsfundum, samhliða deiliskipulagstillögunni.