Umhverfisvottun BREEAM

Vistvæn nálgun er höfð að leiðarljósi við hönnun og skipulag nýja spítalans.Vistvæn nálgun er höfð að leiðarljósi við hönnun og skipulag nýja spítalans.

Vistvæn nálgun er höfð að leiðarljósi við hönnun og skipulag nýja Landspítalans og sú krafa verður gerð til verktaka sem byggja mannvirkin að þau fái viðurkennda umhverfisvottun við lok framkvæmda. Hefur verið ákveðið að miða við breska BREEAM vottunarkerfið og þurfa mannvirkin að fá fjórar af fimm mögulegum stjörnum í því kerfi.

Svokallaðar vistvænar byggingar grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem leitast er við að mæta þörfum framtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða með því að hámarka notagildi og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Við hönnunina er m.a. lög áhersla á orkumál, efnisval, staðarval og heilsuvernd. Tillit er tekið til alls vistferlisins, hvort sem um er að ræða hönnun og framleiðslu byggingarefna, framkvæmdir, rekstur og viðhald og loks niðurrif. Þannig nást fram bæði jákvæð umhverfisáhrif og fjárhagslegur og heilsufarslegur ávinningur því vistvænar byggingar nota minni orku, þurfa minna viðhald, endast lengur og minna er notað af skaðlegum efnum.

Þarf fjórar af fimm mögulegum stjörnum
breeamlogoNíu meginþættir eru metnir í BREEAM kerfinu og gefnar 1-5 stjörnur eftir árangri. Systurstofnun Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) í Bretlandi krefst þess að byggingar fái fjórar af fimm stjörnum í BREEAM kerfinu og hefur það viðmið einnig verið sett fyrir nýju spítalabygginguna. Matsferlið skiptist í fjögur stig; forúttekt á frumhönnun, úttekt á hönnun byggingar, eftirúttekt á fullbúinni byggingu og úttekt á húsi í rekstri. Meginþættirnir níu sem eru metnir eru:

  • umhverfisstjórnun (12%)
  • heilsa og vellíðan (15%)
  • orka (19%)
  • samgöngur (8%)
  • vatn (6%)
  • byggingarefni (12,5%)
  • úrgangur (7,5%)
  • landnotkun og vistfræði (10%)
  • mengun 10%)